Skilmálar

Upplýsingar um greiðsluskilmála og almenna skilmála 

Gildir frá 17. apríl 2022.  

Almennir skilmálar og greiðsluskilmálar sem hér eru birtir hafa verið settar saman af Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR). Upplýsingarnar eiga við um hlaupaviðburðinn Miðnæturhlaup Suzuki 2025 og Sumarhlauparöðina sem hlaupið er partur af.  

 

I. ALMENNIR SKILMÁLAR 

  1. Þessir skilmálar gilda á milli þátttakanda og ÍBR. Skráning í viðburði á vegum ÍBR felur í sér samþykki þátttakanda við því að hlíta skilmálunum. 
  2. ÍBR ber ekki ábyrgð á heilsu þátttakenda í viðburðum á vegum þess hvorki á meðan viðburðunum stendur né í tengslum við þau. Þá ábyrgist ÍBR eða starfsfólk þess og samstarfsaðilar ekki tjón, hvorki líkamlegt, andlegt né fjárhagslegt, sem þátttakendur verða fyrir vegna þátttöku í hlaupinu. 
  3. ÍBR er heimilt að endurskoða eða breyta skilmálum þessum vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna, s.s. heimsfaraldurs, náttúruhamfara eða veðurs. Verði breytingar á skilmálum verða þær tilkynntar til þátttakenda með tölvupósti.  
  4. Sá aðili sem skráir fleiri en sjálfan sig í viðburðinn samþykkir að vera ábyrgur fyrir að kynna skilmála viðburðarins fyrir þeim sem þau  skrá. Ef þau hin sömu eru ekki tilbúin til að samþykkja skilmála viðburðarins verður skrifleg athugasemd að berast ÍBR innan tveggja sólarhringa frá skráningu en eigi síðar en á miðnætti daginn fyrir viðburð.   
  5. Sá sem skráir sjálfan sig og önnur í viðburðinn samþykkir að veita ÍBR heimild til að nota skráningarupplýsingar, með þeim fyrirvara að skráning eða notkun upplýsinganna sé eðlilegur þáttur í starfsemi ÍBR. Hér er átt við birtingu úrslita, almennar póstsendingar, sendingu upplýsinga með tölvupósti og upplýsingar á vefsíðu viðburðarins.  
  6. Persónuupplýsingar sem þátttakendur gefa upp verða meðhöndlaðar af fullum trúnaði og í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, en nánari ákvæði um meðhöndlun persónuupplýsinga er að finna í persónuverndarstefnu ÍBR, sem telst órjúfanlegur hluti skilmála þessara. 
  7. Upplýsingum um þátttakendur verður ekki miðlað til þriðja aðila nema netfangalista til opinbers ljósmyndara viðburðarins. Allar myndir sem teknar eru af opinberum ljósmyndurum viðburðarins af þátttakendum í viðburðinum þess áskilur ÍBR sér rétt til að nota í markaðs- og kynningarefni auk þess sem þær gætu verið birtar á vef opinbers ljósmyndara. 
  8. ÍBR sendir þátttakendum fáeina tölvupósta með ýmsum mikilvægum tilkynningum eins og t.d. upplýsingum um viðkomandi viðburð, dagskrá og skráningarhátíð. Einnig eru sendir tölvupóstar sem tengjast öðrum íþróttaviðburðum á vegum ÍBR. Alltaf gefst kostur á að afskrá sig af póstlista en þá missa þátttakendur af mikilvægum upplýsingum. 
  9. Sá sem skráir sjálfan sig og önnur í viðburðinn samþykkir að allar upplýsingar í skráningu séu réttar og að fylgja reglum sem finna má á vef viðburðarins. 
  10. Vörumerki, merki fyrirtækja og viðskiptaheiti sem birt eru á vefsíðum ÍBR njóta verndar á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi. Hvers kyns notkun þeirra er óheimil nema að fenginni skriflegri heimild frá ÍBR.  
  11. ÍBR ber ekki ábyrgð á efni neinna vefsíðna sem tengdar eru vefsíðu viðburðarins sem ekki er haldið úti af ÍBR. Opinber vefsíða Miðnæturhlaups Suzuki er midnaeturhlaup.is 
  12. Heimili og varnarþing er í Reykjavík 

 

II. GREIÐSLUSKILMÁLAR  

  1. Í skráningarferli ÍBR birtist verð viðburðarins í íslenskum krónum.  
  2. Heildarfjárhæð þátttökugjalds sem gefin er upp er endanlegt verð fyrir valda vegalengd. Enginn virðisaukaskattur er lagður á þá fjárhæð.  
  3. Þátttökugjöld í Miðnæturhlaupi Suzuki eru ekki endurgreidd en hægt er að gera nafnabreytingu á skráningu á meðan rafræn skráning er opin. Skráður þátttakandi er ábyrgur fyrir hlaupanúmeri og öðrum gögnum sem þeim hefur verið úthlutað. Þeim er ekki heimilt að láta það öðrum í té, til þátttöku í hlaupinu. Sá sem hleypur með númer sem ekki er skráð á þann aðila af mótshaldara er ekki gildur þátttakandi. Ekki er hægt að geyma þátttökugjöld viðburða fram á næsta ár. 
  4. Ef viðburðurinn fer ekki fram vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna, svo sem heimsfaraldurs, náttúruhamfara, veðurs o.s.frv., munu greidd þátttökugjöld ekki verða endurgreidd.  
  5. Ekki er hægt að skrá einstakling í viðburðinn nema að greiða þátttökugjald. 

Ef eitthvað í texta þykir óljóst eða orka tvímælis er velkomið að senda athugasemdir eða fyrirspurnir til Íþróttabandalags Reykjavíkur með tölvupósti á netfangið ibr@ibr.is.  

Styrktaraðilar

  • Suzuki
  • 66 norður
  • ÍTR
  • Gatorade