Reglur Miðnæturhlaups Suzuki
Reglur Miðnæturhlaups Suzuki eru settar fram af Íþróttabandalagi Reykjavíkur, framkvæmdaaðila hlaupsins, sem rammi utan um framkvæmd hlaupsins með það að markmiði að hlaupið gangi sem best fyrir sig og að sem flestir njóti þess að taka þátt.
Í Miðnæturhlaupi Suzuki gilda reglur Frjálsíþróttasambands Íslands um götuhlaup sem sjá má hjá fri.is. Til viðbótar við þær gilda einnig eftirfarandi reglur.
- Þátttakendur bera sjálfir ábyrgð á að kynna sér þær reglur sem gilda um þátttöku í Miðnæturhlaupi Suzuki og fylgja þeim eftir í einu og öllu. Brot á reglum geta ógilt þátttöku í hlaupinu.
- Allir þátttakendur sem skrá sig í Miðnæturhlaupi Suzuki eru á eigin ábyrgð. Börn eru á ábyrgð foreldra. Hlaupabrautin er ekki alveg lokuð umferð og því mikilvægt að sýna aðgát. Allir þátttakendur eru beðnir að kynna sér skipulag á marksvæði. (Sjá kort hér).
- Þátttakendur skulu hefja hlaupið á auglýstum tíma. Tímatökukerfið er eingöngu virkt á þeim tíma. (Sjá nánar um tímatöku hér).
- Tímatöku lýkur þremur klukkustundum eftir að hálfmaraþon vegalengd er ræst. Þeir þátttakendur sem koma í mark eftir að þrjár klukkustundir eru liðnar fá ekki skráðan tíma.
- Þátttakendur skulu hafa hlaupanúmerið sýnilegt að framan, allan tímann á meðan hlaupinu stendur. Hlaupanúmer er skráð á ákveðinn þátttakanda og gildir eingöngu fyrir þann einstakling. Frávik frá þessu ógildir tímatöku.
- Hver þátttakandi fær númer með áfastri flögu. Þátttakendur bera ábyrgð á að númerið sé skráð á þeirra nafn og það sé eingöngu notað af þeim sem skráðir er fyrir númerinu. Til þess að fá skráðan tíma verður að festa númerið framan á bolinn. Ef það er ekki gert gildir: „ekkert númer = enginn tími".(Sjá nánar hér)
- Ekki er heimilt að skipta um vegalengd eftir að hlaup er hafið. Sá sem hleypur aðra vegalengd en skráning segir til um er ekki inni í tímatöku hlaupsins og er ekki gildur þátttakandi.
- Aldurstakmörk eru í vegalengdum Miðnæturhlaups Suzuki. Hálfmaraþon 21,1 km er fyrir fimmtán ára og eldri. 10 km hlaup er ætlað fyrir 12 ára og eldri og er ekki æskilegt fyrir yngri börn. Fólk á öllum aldri getur skráð sig í 5 km.
- Þátttakendur skulu kynna sér hlaupaleiðir og eingöngu hlaupa eftir þeirri braut sem skilgreind hefur verið af hlaupahaldara. Hlaupabrautin er eingöngu ætluð keppendum. Ekki er heimilt að fylgja hlaupurum gangandi, hlaupandi, á hjóli eða öðrum farartækjum. Það er á ábyrgð þátttakenda að vísa frá þeim sem vilja fylgja.
- Íþróttabandalag Reykjavíkur, framkvæmdaaðili hlaupsins, áskilur sér rétt til að vísa þeim frá, sem eru á hjóli eða öðrum farartækjum á hlaupabrautinni eða nálægt hlaupandi þátttakendum.
- Þátttakendum er óheimilt að þiggja þjónustu af öðrum en starfsmönnum hlaupsins í formi matar,drykkja eða líkamlegs stuðnings nema í neyð. Þá ber að tilkynna slíkt til hlaupstjóra.
- Þátttakendum er ekki heimilt að hafa meðferðis hunda eða önnur gæludýr í hlaupinu.
- Þátttakendum er ekki heimilt að hafa meðferðis kerrur eða vagna.
- Ekki er heimilt að taka þátt í hlaupinu á vél-, eða rafmagnsknúnum farartækjum, reiðhjóli, hlaupahjóli, línuskautum, hjólabretti, skíðahjólum eða handdrifnu hjóli (hand-cycle).
- Þátttakendur með göngustafi skulu stilla sér upp aftast í upphafi hlaups.
- Þátttakendur í hjólastól skulu haka við það í skráningarferlinu að þeir taki þátt í hlaupinu í hjólastól og með önnur hjálpartæki, skulu vera aftast í upphafi hlaups.
- Þátttakendur skulu sýna öllum starfsmönnum hlaupsins kurteisi og fara eftir leiðbeiningum og fyrirmælum þeirra.
- Þátttakendur skulu sýna öðrum hlaupurum tillitsemi, og hafa í huga almennar umferðareglur.
- Til að veitt verði verðlaun fyrir þjú efstu sætin verða þrjú eða fleiri af hverjum kynjaflokki í hverri vegalengd að hefja hlaup.
- Þegar þátttakendur hafa lokið hlaupi er þeim ekki leyfilegt að fara aftur út á braut til þess að hlaupa með öðrum þátttakendum.
- Hverskyns ósæmileg framkoma, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi við mannhelgi og mannréttindi getur leitt til brottrekstrar úr hlaupinu.